Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Leyfum þetta ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þeim aðstæðum sem við búum nú við, ásamt Framsóknarflokknum.

 

Það var á þeirra vakt sem kvótinn fór í vasana á einkavinum. Það voru þeir sem einkavæddu bankana í hendurnar á fólki með pólitísk tengsl og vináttubönd við stjórnmálamenn.

Það voru þeir sem bjuggu til fáránlega slakan lagaramma utan um verðbréfaviðskipti og bankastarfsemi.

Þeir hunsuðu allar viðvörunarbjöllur um að ekki væri allt með felldu, hvort sem þær komu að innan eða utan.

 

Áttum okkur á því að margir af þeim sem eru hvað háværastir um að sniðganga sjálfstæðisflokkinn eru gamlir andstæðingar, stuðningsmenn VG, fólk sem er illa við Davíð Oddsson, o.s.frv.

Látum þá staðreynd ekki rugla okkur í því sem við vitum. Sjálfstæðisflokkurinn klúðraði illilega. Það væru vond mistök að kjósa þá aftur í stjórn. Í það allra minnsta þurfa þeir 2-3 kjörtímabil í stjórnarandstöðu til að íhuga sín mál alvarlega og til að endurskoða þann hroka og þá afstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn sé náttúrulegur stjórnarflokkur sem sé hreinlega óeðlilegt að stjórni ekki landinu. Þeir lifa í draumi, og eru að rembast við að standa af sér storminn.

Ég hef kosið Sjálfstæðisflokkinn síðan ég fékk kosningarétt. Ekki afþví að foreldrar mínir gerðu það (ég veit í sjálfu sér ekkert hvað þau kjósa), eða af því ég væri bara 'með þeim í liði'. Heldur af því að ég hélt þeir vissu hvað þeir væru að gera og af því ég vill ekki sjá of mikla vinstristjórn.

 

Sú afstaða dugir ekki lengur, þeir vissu augljóslega ekki hvað þeir voru að gera, og ef það þarf vinstristjórn til að forða okkur frá því að hafa aðra stjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs, þá verður bara svo að vera, þó ég myndi frekar vilja kjósa nýjan miðju eða hægriflokk.

Ísland þarfnast lýðræðisumbóta. Við þurfum stjórnlagaþing og alvarlega endurskoðun á stjórnskipan landsins. Þrískipting ríkisvaldsins er í molum, öll raunveruleg stjórn situr á flokksskrifstofum.

Gömlu flokkarnir, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn virðast staðráðin í því að draga sem mest úr orðræðunni, tefja málin og reyna hvað þeir geta að fresta öllum svona hugmyndum þartil mesti eldmóðurinn er úr fólki.

Þeir ætla með öðrum orðum að sitja af sér storminn og halda svo áfram með Business as usual. Nokkur ný andlit í forystunni, sömu kallarnir á bakvið.

Ef það er það sem þið viljið, þá skuluð þið kjósa sjálfstæðisflokkinn.

En ekki kjósa þá því þið 'haldið með þeim' eins og þeir væru fótboltaliðið ykkar og þið eigið erfitt með að hugsa ykkur að kjósa einhvern annan. Ég var einu sinni næstum dottinn í þá gryfju.

Við eigum ekki að 'halda með' stjórnmálaflokkum. Við eigum ekki að kjósa þá vegna þess að við höfum alltaf kosið þá, eða vegna þess að pabbi og mamma kusu þá alltaf.

Við eigum að skoða hvað þeir standa fyrir hverju sinni, hvað þeir hafa gert í fortíðinni og hvernig þeir hafa staðið sig.

Við eigum að skoða hverjir það eru sem okkur finnst við geta treyst til að stjórna hér.

Það er mikilvægara en nokkru sinni.


mbl.is Landsfundur settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband