20.10.2007 | 16:25
Er ekki 'Þjóðkirkja' tímaskekkja?
Manni svona flýgur í hug að þetta fyrirkomulag sé ekki alveg að ganga.
Það væri að mínu mati bæði þjóðinni og kirkjunni í hag að skera á böndin. Ok, kannski ekki beinlínis kirkjunni í efnislegum og fjárhagslegum hag, en þá myndi hún hafa meira frelsi til að fylgja sannfæringu sinna manna.
Ég fæ t.d. ekki séð hvernig 'Þjóðkirkja' getur yfir höfuð neitað að gefa saman samkynhneigða, ef þeir vilja giftast. Þeir eru hluti þjóðarinnar, og það er skylda kirkjunnar að sjá fyrir trúarlegum þörfum þeirra alveg jafn mikið og annarra, svo lengi sem hún er rekin með skattfé þeirra, sem og annarra.
Lútherska kirkjan er þjóðkirkja í dag. Alþingi byrjar ár hvert á því að þingmenn mæta til messu, og prestarnir biðja yfirleitt sérstaklega fyrir ríkisstjórninni í messum. Nú ætla ég ekki að þykjast halda að íslenska ríkið sé eitthvað nálægt því að vera Trúarstjórn (Theocracy), en það samræmist ekki nútíma hugmyndum um stjórnarfar eða réttlæti að ríkið sé að hampa einni trúarstofnun yfir aðrar. Sjá um rekstur á prestaskólanum, borga laun presta og skrá nýfædd börn í kirkjuna nema annað sé alveg sérstaklega tekið fram.
Einnig ber að hafa í huga að þegar ríki og kirkja vinna svona náið saman, þá flest visst þegjandi samþykki af hálfu ríkisins þegar kirkjan lýsir ákveðinni skoðun. Viljum við að ríkið hegði sér útfrá túlkun á einum ákveðnum trúarbrögðum?
Ef raunin er slík að jafn hátt hlutfall íslendinga eru kristnir og látið er í veðri vaka, og ef þeir eru raun-kristnir, en ekki bara eitthvað svona lala, eru skráðir í kirkjuna því þeir hafa ekki pælt mikið í því og sjá enga brýna þörf á að skrá sig úr henni, þá munu þeir skrá sig í hana, þósvo hún hætti að vera þjóðkirkja. Kirkjan missir þá bara tekjur frá þeim sem eru ekki nógu kristnir til að vera áfram skráðir í hana.
Ég myndi jafnvel sætta mig við vissa málamiðlun. Bara það að hætta að skrá börn sjálfkrafa myndi á nokkrun árum gefa mun betri hugmynd um hvernig trúmálum hér er í raun háttað.
Við íslendingar sem ekki erum kristnir eigum nefnilega svolítið erfitt með að kyngja því að við séum að kjósa okkur kirkjumálaráðherra. Að einhver kirkja tali með munni ríkisins, að börnin í landinu mæti í kristnifræði þarsem þeim eru kenndar biblíusögur eins og þær séu jafnmikilar staðreyndir og landafræði eða stærðfræði.
Og alveg sérstaklega svíður mig það að útávið séum við kristnir mótmælendur, og að innflytjendur sem hingað komi fái það á tilfinninguna að hér séu ein trúarbrögð almennt og af ríkinu álitin 'réttari' en önnur. Það lætur fólki líða enn meira eins og utangarðsmönnum en þegar er.
Rætt um að færa þjóðkirkjuna til forsætisráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.