Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Þvílíkt þrugl

Og ég nota ekki orðið 'þrugl' oft.

 

Glæpur gegn mannkyni? Er maðurinn gjörsamlega mjallalaus?

 

Framleiðsla á eldsneyti, á landi sem ella væri hægt að nota til að framleiða matvörur, mun ekkert nema gott af sér leiða. Jú, mögulega mun þetta eitthvað hækka matvælaverð til skamms tíma, enda er alltaf um slíkt að ræða þegar tveir mismunandi atvinnuvegir keppa um sömu gæðin. En fólk mun alltaf koma til með að þurfa mat, og það mun alltaf koma til með að þurfa eldsneyti, meiri kostnaður við mat mun örugglega skila sér í minni eldsneytiskostnaði, og því að olíulöndin muni  að einhverju leiti missa tangarhaldið sem þau hafa á vestrænum hagkerfum. Einnig mun þetta ef til vill opna fyrir það að við lækkum tolla á landbúnaðar-afurðir, og förum að kaupa matvæli frá löndunum þarsem framleiðslan á þeim borgar sig best (þróunarlönd t.d.), á meðan við nýtum okkar land og tækniþekkingu til að búa til eldsneyti, sem er eitthvað sem ætti að henta þróaðari hagkerfum, til mikilla hagsbóta fyrir báða aðilla.

 

Hlustum ekki á svona rugludalla.


mbl.is Eldsneytisframleiðsla úr matvælum „glæpur gegn mannkyninu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varla þurfti rannsókn til að segja okkur þetta.

Mér datt svona í hug að blogga einu sinni um eitthvað aðeins ópólitískara en venjulega.

 

En ég hef reyndar lengi velt því fyrir mér hvernig standi á því að það eru alveg nokkrar konur (og karlar líka...ég bara pæli minna í þeim) sem verða að einhverju voða kyntákni í sjónvarpi og fjölmiðlum, án þess að það sé neitt sérstaklega varið í þær, þær eru stundum allt of grannar (ekki það að ég hafi neitt á móti því að stelpur séu temmilega grannar, en ég þekki engan sem þykir beinagrindur sexí), eða almennt ólögulegar, eða bara svolítið ófríðar....a.m.k. eru ótal aðrar sem eru mun myndarlegri. Lengi vel var það Julia Roberts sem var svona staðalmyndin af konu sem enginn sá sólina fyrir og ég skildi ekki af hverju. Svo reyndar sá ég hana í Pretty Woman og fattaði að hún var mjög falleg hér áður fyrr, og menn sjá hana e.t.v. eitthvað í því ljósi ennþá.

 

En Sarah Jessica Parker, alveg er mér óskiljanlegt að hún hafi orðið að einhverju kyntákni. Það er svona eiginlega eins og það séu einhverjir kallar á einhverjum hollywood skrifstofum, sem hafa lesið bók um hvernig konur séu aðlaðandi og hafi svo valið leikkonur eða fyrirsætur útfá einhverju formúlublaði, án þess þó að hafa nokkurt náttúrulegt skynbragð fyrir því.

 

Minnir mig á gagnrýni sem ég las um teiknimyndasögu-teiknara sem lék lausum hala á 8. áratugnum. Einhver sagði að konurnar hans litu út eins og 'Hugmynd samkynhneigða mannsins um hvað gagnkynhneigðum þyki flott'. Ég geng nú kannski ekki svo langt, en þessar pælingar allavega gripu athygli mína hér í morgun, og mér datt í hug að deila þeim með hverjum sem vildi lesa.


mbl.is Sarah Jessica Parker laus við kynþokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvurslags rökleysa er nú þetta?

Þeir neita að gefa út niðurstöðurnar, vegna þess að þeir vilja ekki hræða farþega.

 

Með öðrum orðum, ef farþegarnir gætu séð niðurstöðurnar, myndu þeir verða hræddir.

 

Hvernig er þetta eitthvað annað en að segja fólki beint út að það ætti að vera hrætt? Nema bara að fólk gæti gert ráð fyrir að niðurstöður skýrslunnar séu enn myrkari en þær eru í raun og veru, vegna þess að þau fá ekki að sjá þær, þau fá bara að vita að þær eru slæmar.


mbl.is NASA vill ekki birta niðurstöður rannsóknar um flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki 'Þjóðkirkja' tímaskekkja?

Manni svona flýgur í hug að þetta fyrirkomulag sé ekki alveg að ganga.

 

Það væri að mínu mati bæði þjóðinni og kirkjunni í hag að skera á böndin. Ok, kannski ekki beinlínis kirkjunni í efnislegum og fjárhagslegum hag, en þá myndi hún hafa meira frelsi til að fylgja sannfæringu sinna manna.

 Ég fæ t.d. ekki séð hvernig 'Þjóðkirkja' getur yfir höfuð neitað að gefa saman samkynhneigða, ef þeir vilja giftast. Þeir eru hluti þjóðarinnar, og það er skylda kirkjunnar að sjá fyrir trúarlegum þörfum þeirra alveg jafn mikið og annarra, svo lengi sem hún er rekin með skattfé þeirra, sem og annarra.

Lútherska kirkjan er þjóðkirkja í dag. Alþingi byrjar ár hvert á því að þingmenn mæta til messu, og prestarnir biðja yfirleitt sérstaklega fyrir ríkisstjórninni í messum. Nú ætla ég ekki að þykjast halda að íslenska ríkið sé eitthvað nálægt því að vera Trúarstjórn (Theocracy), en það samræmist ekki nútíma hugmyndum um stjórnarfar eða réttlæti að ríkið sé að hampa einni trúarstofnun yfir aðrar. Sjá um rekstur á prestaskólanum, borga laun presta og skrá nýfædd börn í kirkjuna nema annað sé alveg sérstaklega tekið fram.

 

Einnig ber að hafa í huga að þegar ríki og kirkja vinna svona náið saman, þá flest visst þegjandi samþykki af hálfu ríkisins þegar kirkjan lýsir ákveðinni skoðun. Viljum við að ríkið hegði sér útfrá túlkun á einum ákveðnum trúarbrögðum?

 

Ef raunin er slík að jafn hátt hlutfall íslendinga eru kristnir og látið er í veðri vaka, og ef þeir eru raun-kristnir, en ekki bara eitthvað svona lala, eru skráðir í kirkjuna því þeir hafa ekki pælt mikið í því og sjá enga brýna þörf á að skrá sig úr henni, þá munu þeir skrá sig í hana, þósvo hún hætti að vera þjóðkirkja. Kirkjan missir þá bara tekjur frá þeim sem eru ekki nógu kristnir til að vera áfram skráðir í hana.

 

Ég myndi jafnvel sætta mig við vissa málamiðlun. Bara það að hætta að skrá börn sjálfkrafa myndi á nokkrun árum gefa mun betri hugmynd um hvernig trúmálum hér er í raun háttað.

 

Við íslendingar sem ekki erum kristnir eigum nefnilega svolítið erfitt með að kyngja því að við séum að kjósa okkur kirkjumálaráðherra. Að einhver kirkja tali með munni ríkisins, að börnin í landinu mæti í kristnifræði þarsem þeim eru kenndar biblíusögur eins og þær séu jafnmikilar staðreyndir og landafræði eða stærðfræði.

Og alveg sérstaklega svíður mig það að útávið séum við kristnir mótmælendur, og að innflytjendur sem hingað komi fái það á tilfinninguna að hér séu ein trúarbrögð almennt og af ríkinu álitin 'réttari' en önnur. Það lætur fólki líða enn meira eins og utangarðsmönnum en þegar er.


mbl.is Rætt um að færa þjóðkirkjuna til forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ísland mömmuríki?

Er það málið að ríkisstjórnin eigi að passa okkur ómálga vesalingana fyrir sjálfum okkur?

 Viljum við búa í ríki þarsem einhverjir kallar setjast niður og ákveða hvernig lífi sé sniðugt að lifa, og setji svo einokanir og skatta til þess að gera það erfitt og dýrt að lifa öðruvísi?

 Það er eitt að átta sig á því að óhófleg áfengisdrykkja sé til langs tíma litið dýrt spaug, þjóðhagslega séð, og vilja draga úr þeim vanda. En að ganga svo langt að leggja gífurlegar álögur á annars löglegan varning, og banna öðrum en ríkinu að selja hann, vegna þess að maður vilji gera fólki svolítið erfitt fyrir að nálgast hann. Nú var ég svona frekar hliðhollur sjálfstæðiðmönnum í síðustu borgarstjórnarkosningum, fannst gott að losna við R-Listann og fannst gaman að fá nýtt blóð í borgina. En eftir að sjá hversu firrtur Vilhjálmur var að sumu leiti, eins og að vilja banna okkur að kaupa bjórinn kaldann? Þetta er forsjárhyggja af tagi sem maður á frekar von á frá VG. Eftir þetta bras, þá get ég ekki sagt að ég gráti það mjög að sjá Vilhjálm fara úr borgarstjórasætinu...nb, ekki vegna þess að ég hafi verið svo ofboðslega sár að missa möguleikann á köldum bjór, heldur vegna þess að þetta atvik gaf vissa innsýn í hugarfar þessa manns. Innsýn sem mér fannst bara ansi fælandi.

 Hver kannast ekki við það að koma úr vinnunni eða skólanum klukkan 7 á föstudagskvöldi og einfaldlega geta hvergi komist í bjór fyrir kvöldið? Það er vegna þess að ríkið er að segja mér að það vilji helst ekki að ég sé að fá mér í glas. En svo lengi sem ég drekk ekki svona á hverjum degi og kem mér upp lifrarsjúkdómi, svo lengi sem ég er ekki með háreisti og læti niðri í bæ, svo lengi sem ég geng ekki um berjandi mann og annan í ölæði, svo lengi sem ég pissa ekki á stjórnarráðið, kemur það þeim þá nokkuð við hvað ég vil fá mér að drekka?

 Auðvitað eru menn sem gera þessa hluti, og eflaust liði öllum betur ef þeir drykkju minna. En að láta okkur öll lifa við alls kyns hömlur, vegna þess að það eru nokkrir inni á milli sem kunna ekki að fara með vín, er fáránlegt og ekki í samræmi við okkar frelsisviðmið að refsa öllum fyrir flónsku sumra.

Leyfum þeim búðum sem telja sig græða á því að selja bjór og vín...jafnvel sterkara. Auðvitað þyrftu þeir þá að hafa alla starfsmenn eldri en 20, og auðvitað þyrftu þeir að hafa strangara eftirlit gagnvart búðarhnupli og aldri kaupenda, og kostnaðurinn bara við það myndi hafa vissan fælingarmátt. En það er þannig sem markaðir virka. Vegur kostnaður þyngra en gróði?


mbl.is Landlæknir: Afnám einkasölu ÁTVR mun auka áfengisneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband