Leyfum þetta ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þeim aðstæðum sem við búum nú við, ásamt Framsóknarflokknum.

 

Það var á þeirra vakt sem kvótinn fór í vasana á einkavinum. Það voru þeir sem einkavæddu bankana í hendurnar á fólki með pólitísk tengsl og vináttubönd við stjórnmálamenn.

Það voru þeir sem bjuggu til fáránlega slakan lagaramma utan um verðbréfaviðskipti og bankastarfsemi.

Þeir hunsuðu allar viðvörunarbjöllur um að ekki væri allt með felldu, hvort sem þær komu að innan eða utan.

 

Áttum okkur á því að margir af þeim sem eru hvað háværastir um að sniðganga sjálfstæðisflokkinn eru gamlir andstæðingar, stuðningsmenn VG, fólk sem er illa við Davíð Oddsson, o.s.frv.

Látum þá staðreynd ekki rugla okkur í því sem við vitum. Sjálfstæðisflokkurinn klúðraði illilega. Það væru vond mistök að kjósa þá aftur í stjórn. Í það allra minnsta þurfa þeir 2-3 kjörtímabil í stjórnarandstöðu til að íhuga sín mál alvarlega og til að endurskoða þann hroka og þá afstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn sé náttúrulegur stjórnarflokkur sem sé hreinlega óeðlilegt að stjórni ekki landinu. Þeir lifa í draumi, og eru að rembast við að standa af sér storminn.

Ég hef kosið Sjálfstæðisflokkinn síðan ég fékk kosningarétt. Ekki afþví að foreldrar mínir gerðu það (ég veit í sjálfu sér ekkert hvað þau kjósa), eða af því ég væri bara 'með þeim í liði'. Heldur af því að ég hélt þeir vissu hvað þeir væru að gera og af því ég vill ekki sjá of mikla vinstristjórn.

 

Sú afstaða dugir ekki lengur, þeir vissu augljóslega ekki hvað þeir voru að gera, og ef það þarf vinstristjórn til að forða okkur frá því að hafa aðra stjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs, þá verður bara svo að vera, þó ég myndi frekar vilja kjósa nýjan miðju eða hægriflokk.

Ísland þarfnast lýðræðisumbóta. Við þurfum stjórnlagaþing og alvarlega endurskoðun á stjórnskipan landsins. Þrískipting ríkisvaldsins er í molum, öll raunveruleg stjórn situr á flokksskrifstofum.

Gömlu flokkarnir, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn virðast staðráðin í því að draga sem mest úr orðræðunni, tefja málin og reyna hvað þeir geta að fresta öllum svona hugmyndum þartil mesti eldmóðurinn er úr fólki.

Þeir ætla með öðrum orðum að sitja af sér storminn og halda svo áfram með Business as usual. Nokkur ný andlit í forystunni, sömu kallarnir á bakvið.

Ef það er það sem þið viljið, þá skuluð þið kjósa sjálfstæðisflokkinn.

En ekki kjósa þá því þið 'haldið með þeim' eins og þeir væru fótboltaliðið ykkar og þið eigið erfitt með að hugsa ykkur að kjósa einhvern annan. Ég var einu sinni næstum dottinn í þá gryfju.

Við eigum ekki að 'halda með' stjórnmálaflokkum. Við eigum ekki að kjósa þá vegna þess að við höfum alltaf kosið þá, eða vegna þess að pabbi og mamma kusu þá alltaf.

Við eigum að skoða hvað þeir standa fyrir hverju sinni, hvað þeir hafa gert í fortíðinni og hvernig þeir hafa staðið sig.

Við eigum að skoða hverjir það eru sem okkur finnst við geta treyst til að stjórna hér.

Það er mikilvægara en nokkru sinni.


mbl.is Landsfundur settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Mar Smárason

Lengi getur slæmt versnað.

Hátekjuskattur, eignarskattur, siðferðislög...

Baldvin Mar Smárason, 26.3.2009 kl. 18:46

2 Smámynd: Alexandra Briem

Já, veistu ég held við þurfum bara að sætta okkur við það.

Við höfum komið okkur í þá stöðu að það er enginn kosningahæfur flokkur á hægrivængnum, og það er engum að kenna nema okkur íbúum landsins.

Það er á okkar ábyrgð að stofna nýja flokka, eða endurhæfa þá sem fyrir eru.

Við getum ekki endalaust gefið þeim sénsa, sama hvað fer úrskeiðis, af því þeir eru eini flokkurinn sem er ekki vinstriflokkur. Í þá átt liggur þvílík spilling og valdhroki.

Ef þeir fá á tilfinninguna að við munum alltaf kjósa þá, sama hvað þeir gera, þá fyrst missa þeir stjórn á sér.

Alexandra Briem, 26.3.2009 kl. 18:55

3 Smámynd: Þórarinn Sigurðsson

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn hefði mjög, mjög gott af því að vera í stjórnarandstöðu. Menn verða bara að vega og meta hvort þeir vilja taka áhættuna á vinstristjórn og dýpka þannig kreppuna. Báðar leiðirnar meika sens, þannig séð.

Þórarinn Sigurðsson, 26.3.2009 kl. 21:03

4 identicon

Taka áhættuna á vinstri stjórn? Hvaða áhætta felst í því? Eina áhættan sem er fyrir hendi er að ef of margir aular kjósi sjallana svo að þeir komist aftur í stjór og haldi áfram þar sem frá var horfið í eyðileggingarstarfsemi sinni

Pétur Björnsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 23:09

5 Smámynd: Þórarinn Sigurðsson

Hærri skattar, meiri hömlur á atvinnustarfsemi, minni vöxtur, meira atvinnuleysi, versnandi kjör og svo framvegis eru hlutir sem ég myndi hafa áhyggjur af ef vinstristjórnin ílengist. Í guðanna bænum, mistök Sjálfstæðisflokksins eru engin ástæða til að refsa eintaklingum og atvinnulífi með afturhaldi og forræðishyggju. Það eru vissulega góð rök að vilja hvíla langsetinn flokk, en menn verða líka að athuga nákvæmlega hvaða lausnir vinstrimenn bjóða í atvinnumálum, nýsköpun eða menntamálum -- meiri ríkisafskipti, meiri forræðishyggju. Ég er hræddur um að þá muni samfélagið drepast í dróma. Ég veit hins vegar líka að ef einhver svarar þessari athugasemd, þá mun svarið vera á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn sé spilltur sjálftökuflokkur, og þar sem slík svör eiga ekkert skylt við málefnalega umræðu um vinstri-hægri held ég að ég segi þetta gott í bili.

Þórarinn Sigurðsson, 26.3.2009 kl. 23:50

6 identicon

Vinstri þarf ekki að þýða að atvinnulíf og nýsköpun verði sett í hlekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið duglegur að "vara við vinstri stjórn" svona korteri fyrir kosningar. Hver er svosem ekki hræddur við kommúnistana?

Ef við kíkjum rétt yfir hafið þá virðast nágrannaþjóðirnar alls ekki hafa það svo slæmt þrátt fyrir sín sósíalísku gildi.

Kári Helgason (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband