Lærðu menn ekkert af Halldórs Ásgríms-málinu?

Þar kom skýrt og greinilega fram að Íslendingar vildu ekkert með það hafa að vera með forsætisráðherra sem nýtur fylgis innan við 10% landsmanna. Það var mikið bras fyrir D-listann að ná sér á strik í kjölfar þess til að bíða ekki afhroð í kosningum. Það tókst, en með herkjum.

Af þessu lærðu menn að því virðist ekki neitt. Jújú, auðvitað er sitthvort fólkið í landsmálum og í borgarmálum. En maður gæti haldið að einhver hefði getað pikkað í öxlina á Villa, Hönnu eða Gísla og hvíslað "Hey, smá hint, vond hugmynd" þegar það var ákveðið að ganga í samstarf við Frjálslynda flokkinn og mynda nýjan meirihluta með Ólafi F. Magnússyni...manni sem naut stuðnings, hvað var það, tæp 2% borgarbúa?

En fyrstu mistökin voru náttúrulega að búa til meirihlutasamstarf með Framsókn strax eftir kosningar. Mikið óskaplega varð ég pirraður. Hefði verið hæstánægður ef Framsókn hefði fengið einu sæti færri í kosningunum.

Ef maður skoðar atburðarásina skref fyrir skref, eftir að samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks brast, þá er í sjálfu sér hvert skref frekar skiljanlegt, en niðurstaðan samt fáránleg.

Auðvitað var komið í óefni. Einhver fjögurra flokka ómynd var komin með stjórnina í borginni og Sjálfstæðisflokkurinn auðmýktur af OR málinu og öllu málinu við Björn Inga.

Eina leiðin til að taka stjórnina aftur var að fá einhvern úr nýja meirihlutanum, og þar lá Ólafur vel við höggi, þarsem hann hafði aldrei tekið beinan þátt í að mynda nýju borgarstjórnina. Og þá voru ekki margir hlutir sem hægt var að bjóða honum sem væru nægilega feitir bitar. Eitt sem dugði var að bjóða honum borgarstjórastöðuna um tíma, í þeirri von að sá tími myndi ekki fara of illa með borgarmálin, fólk myndi ekki fárast um of, og að tími myndi vinnast til að koma öllu í lag á árinu fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Það var visst veðmál.

Og eins og sjá má á þessum nýjustu atburðum, þá gekk það ekki eftir. Samstarfið við Ólaf var að gera út af við Sjálfstæðisflokkinn, fylgið hrynur með hverri könnuninni. Og þó svo þeir hefðu getað tekið stjórnvölin að miklu leiti á næsta ári, þá hefði það verið blóðugt að vinna borgina í ár á kostnað stöðu flokksins sem forystuafls. Jafnvel á landsvísu.

Ég er svona eiginlega mest fúll yfir því hversu rækilega Sjálfstæðisflokknum tókst að kúka upp á bak, þá sérstaklega Vilhjálmi, þegar þeir höfðu gullið tækifæri til að breyta aðeins til í borgarmálum eftir árin með R-listanum.

Ég er eiginlega ennþá að vona að einhverskonar samstarf um meirihluta náist milli Sjálfstæðisflokks og einhvers annars. Vil það frekar en 4ja flokka dæmið aftur.

Það liggur í loftinu að það verði við Framsókn. Ég held að það yrðu mistök. Á einhverjum punkti er það betra að tapa en að halda of lengi dauðahaldi í völdin.

Á hinn bóginn sé ég ekki fyrir að VG eða Samfylking nenni að stíga inn í þetta vesin allt. Auðvitað má sjá það þannig að ef annarhvor þeirra gerði það, og allt félli í ljúfa löð og kjörtímabilið gengi eins og í sögu eftir það, þá gæti viðkomandi flokkur að miklu leiti eignað sér það. En ég held þeir vilji frekar sjá Sjálfstæðisflokkinn brotlenda.

Taktískt séð, þá held ég að það hefði verið klókt af Sjálfstæðisflokknum að leyfa 4ja flokka stjórninni að skakklappast gegnum kjörtímabilið, þeir hefðu sjálfir getað spilað fórnarlamb svika og pretta, sérstaklega ef Villi hefði asnast til að segja af sér þegar ljóst var orðið að borgarbúar treystu honum ekki lengur. Svo hefðu þeir getað miðað á að taka þetta með trompi 2010.

Það er e.t.v. ennþá hægt, ef hinir fjórir flokkarnir vilja ennþá mynda 4ja flokka stjórnina. Þó auðvitað sé ekki hægt að fara út og fá jafn mikla samúð og mögulega hefði verið hægt í fyrra skiptið. Og allt væri náttúrulega unnið fyrir gíg ef fjögurra flokka stjórnin stæði sig svo eins og hetja, öllum að óvörum.

Allavega, stjórnmálamenn framtíðarinnar mega draga lærdóm af þessu.

Kjósendur vilja ekki 4+ mismundandi stjórnarsamstörf á sama kjörtímabilinu.

Kjósendur vilja ekki samstarf sem setur menn með örfylgi í æðstu stöðu.

Kjósendur vilja ekki heldur að menn í æðstu stöðum séu með hroka og sjái stöðu sína sem eitthvað annað en hún er, sérstaklega ef þeir hafa ekkert persónulegt fylgi og hún er bara hrossakaup.

Kjósendur vilja að sjórnmálamenn taki ábyrgð á gerðum sínum, og gjaldi fyrir það ef þeir gera afdrifarík mistök.

 

Eins og staðan er í dag, þá held ég að það sé mjög sterkur leikur hjá Gísla Marteini að fjarlægjast leikinn aðeins. Hann er enn frekar vinsæll, hefur ekki gert neitt rangt sérstaklega, og þó hann hafi kannski ekki gert neitt einstaklega framúrskarandi gott í borginni, þá fer gott orð af þeim verkefnum sem hann sjálfur hefur tekið persónulega þátt í. Hann getur komið aftur að ári, með meiri menntun, og hversu illa sem kann að fara á meðan, þá óhreinkar það hann ekki mikið persónulega. Mætti jafnvel líta á hann sem plan-b fyrir D-listann. Ef allt fer í óefni, þá er gott að einn af stóru spilurunum geti snúið aftur, hreinn og óflekkaður, og leitt flokkinn í kosningum. Auðvitað er erfitt að segja nákvæmlega hvað hann myndi gera ef allt fellur í ljúfa löð og Hanna Birna tryggir stöðu sína sem leiðtogi D-lista í borginni. En þá eru landsmálin alltaf möguleiki.


mbl.is Samstarfið á „endastað"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband