24.1.2009 | 10:43
Kominn tími til.
Ég held að þetta sé löngu tímabært.
Stjórnarskráin gamla er fyrir löngu búin að sýna vanmátt sinn.
Þrískipting ríkisvaldsins á Íslandi er brandari, við erum með gagnslaust forsetaembætti, sem enginn veit samt nákvæmlega hversu gagnslaust er.
Það er eins og það hafi verið þegjandi samkomulag um að láta aldrei reyna á stjórnarskrána, því það væri of mikið vesin að fara að skoða nákvæmlega hvað hún segir, hvað ræður þegar ákvæði í einum kafla virðist stangast á við ákvæði úr öðrum, o.s.frv. Það hefur bara myndast viss hefð í kringum hvað sumir álíta að stjórnarskráin ætti að segja, og svo hefur verið látið eins og það sé staðreyndin.
Það sér það hver sem vill að þetta gengur ekkert til lengdar.
Og það er samt fyrir utan það að þingræðisfyrirkomulagið er í raun forngripur frá 18.-19. öld, með löngum sumar og jólafríum, og í raun í engan stað í stakk búið til að búa til og viðhalda fullnægjandi lagaumhverfi á 21. öldinni þarsem hlutirnir gerast töluvert hraðar en á 18. öld. Þá var alveg nóg að hittast öðru hverju á ári til að fara yfir hlutina.
Hluti af því sem olli bankahruninu var það að bankageirinn breytist og nýtti sér markaðsaðstæður um leið og tækifærin komu upp, ef mönnum virtist geta verið gróði í því, með mun meiri hraða en þingræðisfyrirkomulagið gat fylgt eftir eða sett lög í kringum.
Fyrirtæki hafa tekið stórstígum framförum á síðustu 200 árum, við erum búin að finna upp hagfræði og kapítalisma, sem virka satt að segja of vel til síns brúks. Fyrirtæki sem þrífast í dag, gera það vegna þess að þau verða ofan á í alveg svakalegri samkeppni, fullnýta sitt fólk og bestu fáanlegu tækni hvers tíma.
Það er ekki í raun hægt að sakast við fyrirtæki fyrir að gera allt sem þau geta til að hámarka gróða....til þess eru þau hönnuð og það er þeirra hlutverk.
Mótvægið er svo löggjöfin. Hún á að setja fyrirtækjum takmörk, skilgreina hversu langt þau mega ganga, hvað þau megi ekki gera, og hvaða viðurlög eru við því að brjóta þann ramma.
Á Íslandi, og reyndar í heiminum öllum, hefur gamla 18. aldar þingræðisfyrirkomulagið gjörsamlega brugðist í þessu hlutverki sínu.
Það er einfaldlega ekki í stakk búið til þess. Okkur skortir stjórnarfarslegan jafninga við kapítalismann.
Því höfum það alveg á hreinu, ég er ekki á móti kapítalisma, hann svínvirkar og er besta aðferðin til að hámarka hagsæld. En það er gagnslaust ef hann er ekki látinn gera það.
Við stöndum á krossgötum, við getum annaðhvort ákveðið að standa fyrir raunverulegri breytingu á því hvernig við höndlum okkar stjórnsýslu, hvernig við setjum lög og framfylgjum þeim, og búum til þjóðfélag sem er fært um að nýta sér kapítalismann öðruvísi en þannig að hann fái að kollríða hverju sem honum sýnist, eða við getum lappað upp á gamla kerfið, kosið nýtt fólk, sem er samt í raun það sama og gamla fólkið, og látið það beita sömu gömlu 18. aldar aðferðunum.
Ég styð breytingar á þessu sviði heilshugar, það er löngu löngu tímabært. Hver er með mér?
Hvítborðar boða Nýtt lýðveldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég er með þér en bara upp að því marki sem þarf til svo ég geti verið einræðisherra :D
Þórey (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 11:36
Hmm... mér finnst nú ekki ganga upp sem skýring fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda að alþingismenn fari í löng sumar- og jólafrí.
Eins og þeir hafi verið í kapp við tímann að setja hömlur á bankana meðan þing var starfandi?
Mjög undarleg greining, ég held þeir hafi bara ekki gert sér grein fyrir því hvað var í gangi og hversu mikil löggjöf var nauðsynleg...
Eftir að hafa lesið þetta blogg sé ég ekki aðra niðurstöðu en sá að nútímavæðing þingsins og viðameira taumhald löggjafarvaldsins á markaðinum náist með styttri fríum þingmanna?
Viktor (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 05:40
Ég tók nú bara þessi frí sem dæmi um hvað þingskipulagið er mikil tímaskekkja.
Ég ætla að ræða við þig þegar þú ert í aðeins minni morfís ham.
Alexandra Briem, 25.1.2009 kl. 05:58
Já, en punkturinn er sá að ég held þeir hafi alveg haft alla starfræna burði til þess að taka á málinu... kannski ekki lagalega eða andlega burði...
Viktor (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.