Færsluflokkur: Bloggar

Jæja, er ekki komið gott af mbl bara?

Sko, ég hef heilmargt að segja, en ég vil eiginlega ekki segja það á bloggi tengt mbl.is lengur.

 Það er eiginlega löngu hætt að vera fyndið hvað þetta blað er mikil málpípa sjálfstæðisflokksins. Meina, við vissum alltaf að það væri það í rauninni, en það er alveg óþarfi að æpa það í eyrun á okkur.

Ég er farinn að verða var við það að ég er farinn að setja inn sífellt lengri og pólitískari facebook statusa, og jafnvel farinn að setja inn langt fyrsta komment til að koma öllu frá mér sem mig langar að segja. Og það náttúrulega gengur ekki til lengdar.

 Svo ég ætla aðeins að fara að blogga aftur, svona af og á.

Það mun fara fram á blogger.com á slóðinni http://vrovl.blogspot.com/ 

a.m.k. þartil annað kemur í ljós.

 

Góðar stundir


Eru auð atkvæði málið?

Ég held klárlega að svo sé ekki. Jújú, það eru viss skilaboð, en þau hafa engan raunverulegan þunga á bakvið sig, þau breyta ekki niðurstöðunni á neinn hátt sem skiptir máli.

Ágætur maður sem ég kannast við lýsti því þannig að þeir sem skila auðu séu í raun að kjósa alla. Það má alveg sjá það þannig.

Annars hefur mér oft dottið í hug að skila auðu, það er alveg raunverulegur kostur þegar maður er ósáttur við alla flokka og finnst þeir allir mega éta það sem úti frýs. En þegar það eru ný framboð í boði, sem ekki hafa kúkað upp á bak, þá finnst mér það ekkert óeðlilegt að kynna sér það a.m.k. áður en maður fer og ákveður að það sé ábyggilega bara jafn slæmt og framboðin sem fyrir eru.

Borgarahreyfingin er uppfull af góðu fólki, úr öllum sviðum samfélagsins, þarna eru hægrisinnar, vinstrisinnar og miðjumenn, karlar og konur, menntafólk og iðnaðarmenn, ríkt fólk og fátækt. Það sem við eigum sameiginlegt er að blöskra flokksræðið á Íslandi og stjórnarhættina sem viðgangast hér, að vera reið yfir spillingunni og hagsmunatengslunum sem kolríða íslensku stjórnmála og viðskiptalífi.

Nú veit ég að margir eru hreinlega ósammála okkur á málefnalegum grundvelli, og það er allt í lagi. Og margir treysta okkur ekki sökum reynsluleysis eða annars, og það er þá bara þeirra skoðun.

En ef maður ætlar að taka afstöðu á annað borð, í þessum kosningum sem gætu verið þær mikilvægustu í nútímasögu íslensku þjóðarinnar, þá finnst mér ótækt að afskrifa raunverulegt nýtt framboð, sem hefur engin tengsl við hrunið eða spillinguna og hefur öll sín spil á borðinu, án þess að kynna sér það.

Stefnuna má lesa hér á www.borgarahreyfingin.is/stefnan

 Ekki skila auðu ef þú gætir verið að nota atkvæði þitt til að knýja fram breytingar á kerfinu.


mbl.is Margir ætla að skila auðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gera ekki neitt!

Þetta eru frábærar fréttir fyrir alla þá sem er annt um það að stjórnlagaþing fari fram í haust, fyrir þá sem vilja róttæka endurskoðun á flokksræðinu og þá sem vilja láta rannsaka bankahrunið og aðdraganda þess af fullum heilindum og þannig að menn verði látnir sæta ábyrgð.

Þrátt fyrir stuttan undirbúningstíma og því sem næst tómar fjárhirslur, hefur Borgarahreyfingin náð stórum áfanga. Skilaboð okkar eiga greinilega einhvern hljómgrunn í samfélaginu.

Skoðið endilega verkefnalistann á www.borgarahreyfingin.is þar er stefnuskráin í smáatriðum.

Ég hvet fólk til þess að hugsa sig vandlega um áður en það skilar auðu í þessum kosningum, vissulega er það yfirlýsing útaf fyrir sig, en á helst við þegar allir kostir eru slæmir og maður vill lýsa gremju með kerfið. En fáir stjórnmálamenn sem eru starfandi í dag myndu láta fjölda auðra atkvæða raunverulega á sig fá, þeir myndu bara ypta öxlum og segja "Auðvitað er það leiðinlegt að við skulum ekki hafa víðari hljómgrunn..."  og halda svo ótrauðir áfram. Kannið framboðin fyrst, áður en þið skilið auðu.

Autt er dautt.


mbl.is O-listi fengi fjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta verður að stöðva!

Það er þá bara svona?

 

Búið að slá af stjórnlagaþingið "Allavega í bili", sem er stjórnmálamannamál og þýðir "Við viljum alls ekki gera þetta, svo við málþófumst þartil okkur finnst afsakanlegt að stinga þessu undir stól, þartil mesti hitinn er úr mönnum, þá kannski tökum við upp einhverja vanmáttuga og útþynnta útgáfu, sem við höfum a.m.k. algjörlega í vasanum og látum framkvæma einhverjar smávægilegar kerfisbreytingar, en þá eru sauðirnir í landinu hvorteðer búnir að gleyma hvers vegna þeir voru að jarma eitthvað, svo getum við haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist"

 

Ætlum við að sætta okkur við þetta? Stjórnlagaþing er bráðnauðsynlegt, ekki seinna en á þessu ári. Við verðum að halda það og við verðum að breyta ansi miklu. Þrískipting ríkisvaldsins er í molum, og allt vald alþingis situr á flokkaskrifstofum, þingið sjálft er bara formsatriði eins og mál standa.

 

Við verðum að passa það einnig að á stjórnlagaþinginu sitji fólk sem veit hvað það er að gera, og við getum treyst að séu ekki þar hreinlega í umboði stjórnmálaflokkanna að ganga þeirra erindum.

Nauðsyn þess að breyta stjórnskipan á Íslandi til hins betra er ástæðan fyrir því að ég gekk í Borgarahreyfinguna, ég trúði því aldrei að starfandi stjórnmálaflokkar myndu hafa það í sér að framkvæma nauðsynlegar breytingar, þarsem þær draga úr þeirra eigin áhrifum, það er þeim hreinlega ekki eðlislægt.

 

Og nú er nákvæmlega það að koma á daginn. Þetta mál verður tafið og kaffært þartil ekkert af upphaflega ásetningnum stendur eftir.

 

Eina framboðið sem hefur það sem sitt kjarnamarkið að bæta stjórnskipan á Íslandi og færa völd frá stjórnmálaflokkunum aftur til þjóðarinnar er Borgarahreyfingin. Hún er eina framboðið sem ætlar sér ekki að vera langtímum til valda og fólk getur þessvegna treyst til þess að vinna ötullega að þessu marki, því við munum ekki hafa neina einkahagsmuni fólgna í að tefja þetta mál eða draga úr því.

Sú rödd að lagfæra þurfi stjórnskipan landsins, að halda þurfi stjórnlagaþing og að stjórnlagaþingið þurfi að vera sjálfstætt og óháð flokkunum, þarf að heyrast á alþingi.

Borgarahreyfingin er ekki eitthvað djók, okkur er fúlasta alvara í að lagfæra kerfi sem er bæði úr sér gengið og lélegt.

 

Ef þú ætlar að kjósa í kosningunum, hugsaðu þá málið og athugaðu hvaða framboði þú ert helst sammála. Íhugaðu hverjum þú treystir helst til að framkvæma það sem þér finnst þurfa að framkvæma. Ekki halda bara með einhverjum flokk af því þú hefur alltaf kosið hann.

 

Ef Íslendingar eru ekki tilbúnir að velja raunverulegar breytingar núna, þegar komið er í ljós þvílíkt arfaklúður Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn leiddu yfir okkur, eftir að komið er í ljós hvað Samfylking og Vinstri Grænir eru tilbúnir að láta mikilvæg mál eins og stjórnlagaþing bíða og kafna, þá hvenær?

Og ef þú ert einn af þeim sem ætlar að skila auðu í kosningunum, af hverju ekki að kjósa frekar hreyfingu sem vill breyta kerfinu?


mbl.is Stjórnarskráin áfram á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfum þetta ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þeim aðstæðum sem við búum nú við, ásamt Framsóknarflokknum.

 

Það var á þeirra vakt sem kvótinn fór í vasana á einkavinum. Það voru þeir sem einkavæddu bankana í hendurnar á fólki með pólitísk tengsl og vináttubönd við stjórnmálamenn.

Það voru þeir sem bjuggu til fáránlega slakan lagaramma utan um verðbréfaviðskipti og bankastarfsemi.

Þeir hunsuðu allar viðvörunarbjöllur um að ekki væri allt með felldu, hvort sem þær komu að innan eða utan.

 

Áttum okkur á því að margir af þeim sem eru hvað háværastir um að sniðganga sjálfstæðisflokkinn eru gamlir andstæðingar, stuðningsmenn VG, fólk sem er illa við Davíð Oddsson, o.s.frv.

Látum þá staðreynd ekki rugla okkur í því sem við vitum. Sjálfstæðisflokkurinn klúðraði illilega. Það væru vond mistök að kjósa þá aftur í stjórn. Í það allra minnsta þurfa þeir 2-3 kjörtímabil í stjórnarandstöðu til að íhuga sín mál alvarlega og til að endurskoða þann hroka og þá afstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn sé náttúrulegur stjórnarflokkur sem sé hreinlega óeðlilegt að stjórni ekki landinu. Þeir lifa í draumi, og eru að rembast við að standa af sér storminn.

Ég hef kosið Sjálfstæðisflokkinn síðan ég fékk kosningarétt. Ekki afþví að foreldrar mínir gerðu það (ég veit í sjálfu sér ekkert hvað þau kjósa), eða af því ég væri bara 'með þeim í liði'. Heldur af því að ég hélt þeir vissu hvað þeir væru að gera og af því ég vill ekki sjá of mikla vinstristjórn.

 

Sú afstaða dugir ekki lengur, þeir vissu augljóslega ekki hvað þeir voru að gera, og ef það þarf vinstristjórn til að forða okkur frá því að hafa aðra stjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs, þá verður bara svo að vera, þó ég myndi frekar vilja kjósa nýjan miðju eða hægriflokk.

Ísland þarfnast lýðræðisumbóta. Við þurfum stjórnlagaþing og alvarlega endurskoðun á stjórnskipan landsins. Þrískipting ríkisvaldsins er í molum, öll raunveruleg stjórn situr á flokksskrifstofum.

Gömlu flokkarnir, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn virðast staðráðin í því að draga sem mest úr orðræðunni, tefja málin og reyna hvað þeir geta að fresta öllum svona hugmyndum þartil mesti eldmóðurinn er úr fólki.

Þeir ætla með öðrum orðum að sitja af sér storminn og halda svo áfram með Business as usual. Nokkur ný andlit í forystunni, sömu kallarnir á bakvið.

Ef það er það sem þið viljið, þá skuluð þið kjósa sjálfstæðisflokkinn.

En ekki kjósa þá því þið 'haldið með þeim' eins og þeir væru fótboltaliðið ykkar og þið eigið erfitt með að hugsa ykkur að kjósa einhvern annan. Ég var einu sinni næstum dottinn í þá gryfju.

Við eigum ekki að 'halda með' stjórnmálaflokkum. Við eigum ekki að kjósa þá vegna þess að við höfum alltaf kosið þá, eða vegna þess að pabbi og mamma kusu þá alltaf.

Við eigum að skoða hvað þeir standa fyrir hverju sinni, hvað þeir hafa gert í fortíðinni og hvernig þeir hafa staðið sig.

Við eigum að skoða hverjir það eru sem okkur finnst við geta treyst til að stjórna hér.

Það er mikilvægara en nokkru sinni.


mbl.is Landsfundur settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fullkomnu samfélagi...

Væri ekki bannað að selja þessa þjónustu gegn greiðslu frekar en aðra.

 

Reyndar er þetta ekki svona einfalt, vegna þess að náttúrleg eftirspurn eftir vændi er væntanlega töluvert hærri en náttúrulegt framboð.

 

Ég held reyndar, þvert á það sem sumir sögðu í viðtali nýlega, að það séu til aðillar, bæði karlar og konur, sem eru tilbúin að framkvæma þessa þjónustu gegn ríflegri greiðslu, og geti gert það án þess að verða tiltakanlega meint af....en þessir aðillar, ef til eru, anna engan veginn eftirspurn.

 

Þess vegna er þetta vandamál, vegna þess að þessi eftirspurn er svo mikil, þá sjá óprúttnir aðillar sér sóknarfæri í að uppfylla hana....ekki sjálf, heldur með því að plata eða neyða aðra til þess. Það er einfaldlega of gróðvænlegt til þess að það gerist ekki.

 

Ég held reyndar að lagasetning sé ekki endilega góð leið til þess að koma í veg fyrir þetta vandamál. Eiturlyf eru ólögleg, ekki eru þau horfin, þau eru bara kominn dýpra í undirheimana. En ég er ekki viss um ég þekki betri lausn. Sum lönd hafa prófað að leyfa þetta og setja einfaldlega strangan lagaramma umhverfis það. Reyna að passa að enginn sé neyddur til neins, að þessi iðnaður borgi skatta eins og aðrir, að grundvallar mannréttindi séu til staðar og að mannsæmandi laun séu greidd. (þeas. nógu góð fyrir fólk til að fara út fyrir þennan þægindaramma sinn) En það hefur, að því er ég best veit, ekki alltaf skilað góðum árangri, og hefur búið til þá fáránlegu stöðu að kona fékk ekki atvinnuleysisbætur, vegna þess að hún hafði hafnað starfi sem henn  bauðst, á vændishúsi.

 

Í hnotskurn er vandamálið það, að allstaðar þarsem það er svona svakaleg eftirspurn, og svona margir tilbúnir til að borga ríflega summu til þess að fá eftirspurn sinni svarað, þá mun myndast svartur markaður með þá þjónustu. Það er óhjákvæmilegt.

Það er gott og blessað að vera á móti þessu, því við erum öll sammála um það að það sé viðurstyggilegt hvernig komið er fram við fólk sem er fast í þessari stöðu. En ég held að það sé aðallega lýðskrum að halda því fram að lagasetning geti raunverulega komið í veg fyrir þetta vandamál. Hún gerir það bara minna sýnilegt, svo venjulegt fólk geti hætt að pæla í því og liðið eins og það hafi stutt góð lög.


mbl.is Refsivert að kaupa vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sorglega er...

Að það er eitthvað til í þessu.

Það þýðir ekki að ég sé sammála honum, eða að hann þurfi ekki að yfirgefa Seðlabankann. En það er samt alveg örugglega fleiri en ein hlið á málinu.

Það sem eftir stendur er að í Stjórnartíð Davíðs í seðlabankanum mistókst að ná verðbólgumarkmiði, og það sem hann tók ekki fram er að ástæðan fyrir því hvað bankarnir fengu auðveldlega mikið af fjármagni, er hávaxtastefna Seðlabankans.

Ég vorkenni Davíð vissulega svolítið, hann hefur gert mörg stór mistök í sinni tíð, og oft verið harkalegur og jafnvel dónalegur. En ég er ekki tilbúinn að útnefna hann allsherjarsökudólg.

Fjármálaeftirlitið ber stærri sök en Seðlabankinn varðandi eftirlit og aðhald, þó rótarorsökin séu enn sem áður stýrivextirnir og krónan. Ríkisstjórn Geirs Haarde hefði ekki átt að sofa á verðinum, þó að grunnbrestirnir hafi myndast í stjórnartíð Davíðs, og þó að einkavæðing bankanna hafi farið fram í stjórnartíð Davíðs, þá er ekki þar með sagt að allir aðrir megi kasta til höndum og þykjast ekki hafa getað gert neitt.

 

Ég held að Davíð hafi meint vel að vissu leiti með sínum stjórnvaldsákvörðunum í stjórnarsetu sinni, hann vissi sem var að einkavæðing bankanna væri nauðsynleg. Það sem klúðraðist var framkvæmdin þegar bankarnir runnu eins og smurðir niður hálsana á einkavinum, Davíðs og annarra. Hann hefur mögulega séð að í óefni stefndi undir það síðasta, og ég trúi ekki öðru en að ef svo sé hafi hann viljað beita sínum áhrifum til að koma í veg fyrir það, en það er bara þannig að í bullandi góðæri vill enginn heyra minnst á að það sé loftbóla, enginn vill grípa til ráðstafanna meðan enn er hægt að halda fyrir eyrun og vona hið besta.

Hann er fulltrúi gamla Íslands, þar sem klíkustjórn og helmingaskipti, vinargreiðar og einkavinavæðing réðu ríkjum. Hann er einn fárra manna sem komust á spenann og sugu hann til mergjar.

 

Ef við ætlum að vera á móti Davíð, verum þá fúl út í hann fyrir hroka hans, fyrir þátttöku sína í spillingunni sem var (og er), fyrir eftirlaunafrumvarpið, fyrir misvitrar ákvarðanir.

En við skulum ekki eigna honum allan heiðurinn af kreppunni. Þó vissulega sé hann einn af þeim sem bera ábyrgð á grunni hennar.


mbl.is Davíð í Kastljósviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er nú bara barnalegt.

Davíð þarf að fara úr Seðlabankanum, og helst að halda sig frá pólitík í framtíðinni. Hávaxta stefnan sem hann stóð fyrir, í hagkerfi með fljótandi krónu, sem hann stóð líka fyrir, er mjög líklega grundvallar undirrót efnahagsvandans.

 

En þetta 'Gerum Davíð að allsherjar-Grýlu sem ber ábyrgð á öllu sem miður fer'-dæmi sem Jón Ásgeir er búinn að vera með í gangi er ekkert minna en fáránlegt.

 

Ég heyrði í honum Jóni Ásgeiri í útvarpinu, og hann er annaðhvort kominn með bullandi vænisýki, eða telur að í ljósi þess að Davíð er orðinn gífurlega óvinsæll og sé á útleið undir gífurlegum þrýstingi, þá sé fólk tilbúið að trúa bókstaflega hverju sem er upp á hann.

Davíð ber ábyrgð á mörgu. En leyfum ekki þeim sem bera líka ábyrgð að firra sig henni með því að reyna að ýta henni allri yfir á óvinsælasta og að mörgu leiti stærsta sökudólginn.

Baugur ber ábyrgð á eigin afkomu, Baugur ber ábyrgð á eigin ákvörðunum.


mbl.is Baugur í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Be careful what you wish for.

You just might get it.

 

Það er nú fyndið að lagaumhverfi sem er hannað til þess að Seðlabankar séu tiltölulega óháðir Ríkisstjórnum, sé farið að vernda pólitískasta Seðlabankastjóra fyrr og síðar.

 

Það er góð og gild ástæða fyrir því að Seðlabankar eigi að hafa töluvert sjálfstæði frá stjórnvöldu, að ný Ríkisstjórn geti ekki bara komið á mánudegi og verið búin að skipta út seðlabankastjórn á þriðjudegi eins og hún væri ráðuneyti.

 

Ríkisstjórn á ekki, í lýðræðislegu samfélagi, að geta hringt upp í Seðlabanka og pantað stýrivaxtabreytingu....enda á Seðlabanki að vera ópólitískur og faglegur. Í bandaríkjunum minnir mig að það geti tekið áratugi að skipta út seðlabankastjórn eins og hún leggur sig.

Þetta á nefnilega ekki að vera pólitískt batterí. Það á að vera erfitt fyrir pólitíkusa að breyta því þvers og kruss eftir eigin höfði. Þarna á að vera stöðugleiki og skýr peningamálstjórn, óháð pólitískum stöðugleika í landinu.

 

Þess vegna er það fáránlegt að lög sem eiga að verna slíkt fyrirkomulag skuli gera mönnum erfiðara fyrir að skipta út pólitíkusum í Seðlabankanum.

 

Sem maður sem trúði einu sinni á Davíð Oddsson, þá bið ég hann um að sjá sóma sinn í því að segja af sér. Ég bið hann að sýna mér að ég hafi a.m.k. haft eitthvað pínkulítið fyrir mér í að kjósa hann. Ég vil ennþá helst ekki trúa því ennþá að hann myndi ríghalda sér þarna, þrátt fyrir að hafa brugðist bæði í því sem hann framkvæmdi og því sem hann hefði átt að framkvæma en gerði ekki, þrátt fyrir að við sem þjóð séum höfð að athlægi fyrir að vera með fyrrverandi Forsætisráðherra í seðlabankastjórn og þrátt fyrir þá staðreynd að hvaða Seðlabankastjóri sem er myndi sjá sóma sinn í því að segja af sér, jafnvel þó hann bæri enga raunverulega sök, ef það væri nauðsynlegur þáttur í því að skapa trúverðugleika á fjármálakerfi landsins á nýjan leik.

Davíð, þú verður að fara úr Seðlabankanum...plís.


mbl.is Davíð undir væng Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til.

Ég held að þetta sé löngu tímabært.

 

Stjórnarskráin gamla er fyrir löngu búin að sýna vanmátt sinn.

 

Þrískipting ríkisvaldsins á Íslandi er brandari, við erum með gagnslaust forsetaembætti, sem enginn veit samt nákvæmlega hversu gagnslaust er.

Það er eins og það hafi verið þegjandi samkomulag um að láta aldrei reyna á stjórnarskrána, því það væri of mikið vesin að fara að skoða nákvæmlega hvað hún segir, hvað ræður þegar ákvæði í einum kafla virðist stangast á við ákvæði úr öðrum, o.s.frv.  Það hefur bara myndast viss hefð í kringum hvað sumir álíta að stjórnarskráin ætti að segja, og svo hefur verið látið eins og það sé staðreyndin.

Það sér það hver sem vill að þetta gengur ekkert til lengdar.

 

Og það er samt fyrir utan það að þingræðisfyrirkomulagið er í raun forngripur frá 18.-19. öld, með löngum sumar og jólafríum, og í raun í engan stað í stakk búið til að búa til og viðhalda fullnægjandi lagaumhverfi á 21. öldinni þarsem hlutirnir gerast töluvert hraðar en á 18. öld. Þá var alveg nóg að hittast öðru hverju á ári til að fara yfir hlutina.

Hluti af því sem olli bankahruninu var það að bankageirinn breytist og nýtti sér markaðsaðstæður um leið og tækifærin komu upp, ef mönnum virtist geta verið gróði í því, með mun meiri hraða en þingræðisfyrirkomulagið gat fylgt eftir eða sett lög í kringum.

Fyrirtæki hafa tekið stórstígum framförum á síðustu 200 árum, við erum búin að finna upp hagfræði og kapítalisma, sem virka satt að segja of vel til síns brúks. Fyrirtæki sem þrífast í dag, gera það vegna þess að þau verða ofan á í alveg svakalegri samkeppni, fullnýta sitt fólk og bestu fáanlegu tækni hvers tíma.

 

Það er ekki í raun hægt að sakast við fyrirtæki fyrir að gera allt sem þau geta til að hámarka gróða....til þess eru þau hönnuð og það er þeirra hlutverk.

Mótvægið er svo löggjöfin. Hún á að setja fyrirtækjum takmörk, skilgreina hversu langt þau mega ganga, hvað þau megi ekki gera, og hvaða viðurlög eru við því að brjóta þann ramma.

Á Íslandi, og reyndar í heiminum öllum, hefur gamla 18. aldar þingræðisfyrirkomulagið gjörsamlega brugðist í þessu hlutverki sínu.

Það er einfaldlega ekki í stakk búið til þess. Okkur skortir stjórnarfarslegan jafninga við kapítalismann.

 

Því höfum það alveg á hreinu, ég er ekki á móti kapítalisma, hann svínvirkar og er besta aðferðin til að hámarka hagsæld. En það er gagnslaust ef hann er ekki látinn gera það.

 

Við stöndum á krossgötum, við getum annaðhvort ákveðið að standa fyrir raunverulegri breytingu á því hvernig við höndlum okkar stjórnsýslu, hvernig við setjum lög og framfylgjum þeim, og búum til þjóðfélag sem er fært um að nýta sér kapítalismann öðruvísi en þannig að hann fái að kollríða hverju sem honum sýnist, eða við getum lappað upp á gamla kerfið, kosið nýtt fólk, sem er samt í raun það sama og gamla fólkið, og látið það beita sömu gömlu 18. aldar aðferðunum.

 

Ég styð breytingar á þessu sviði heilshugar, það er löngu löngu tímabært. Hver er með mér?


mbl.is Hvítborðar boða Nýtt lýðveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband